Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 826  —  1. mál.
Viðbót.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið í tvígang á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Breytingartillögur meiri hlutans ná bæði til tekju- og gjaldahliðar frumvarpsins.

Heildaryfirlit vegna fjárlaga 2024.
    Með þeim breytingartillögum sem gerð er grein fyrir í áliti þessu er samtals gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 1.356 ma.kr. og að útgjöldin verði 1.407 ma.kr. Miðað við þetta er áætlaður 51 ma.kr. halli á ríkissjóði á næsta ári eða sem nemur um 1,1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Það er um 4 ma.kr. lakari útkoma en miðað var við eftir 2. umræðu frumvarpsins og áætlað er að skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál verði um 32% af VLF.
    Þessi áætlun er vel innan þeirra marka samþykktar fjármálastefnu 2022–2026 sem miðar við að halli verði að hámarki 3% af VLF á næsta ári. Þá er skuldahlutfall ríkissjóðs í grófum dráttum óbreytt frá því sem áður var áætlað.

Tekjur ríkissjóðs.
    Gerðar eru tillögur í 10 liðum vegna breytinga á tekjuhlið fjárlaga. Þar vegast á breytingar til hækkunar og lækkunar. Á heildina litið er breyting aðeins 62 m.kr. til lækkunar tekna. Flest tilefnin eru tilkomin vegna tillagna efnahags- og viðskiptanefndar um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Til hækkunar munar mest um breytingar á veiðigjaldi sem hækkar um 1,6 ma.kr. í kjölfar nýrrar álagningar gjaldsins en á móti vegur 346 m.kr. lækkun vegna þess að fiskeldisgjald hækkar heldur minna en ætlað var. Nettóbreyting veiðigjalda er 1.254 m.kr. hækkun.
    Nú er gert ráð fyrir að breytingar á kolefnisgjaldi og bensíngjaldi taki gildi 1. apríl í stað 1. janúar nk. Af þeim sökum lækka væntar tekjur alls um 650 m.kr. Er það samtala 150 m.kr. hækkunar vegna frestunar á lækkun bensíngjalds og 800 m.kr. lækkunar vegna frestunar á hækkun kolefnisgjalds.
    Gerð er tillaga um 700 m.kr. lækkun tekna af virðisaukaskatti vegna framlengingar ívilnunar við endursölu vistvænna bíla í eigu bílaleigna og um aðrar 700 m.kr. vegna framlengingar á ákvæði um virðisaukaskattsívilnun fyrir reiðhjól.
    Gerð er tillaga um hækkun tekna af gistináttaskatti um 420 m.kr. og að auki eru lagðar til þrjár lagfæringar þar sem samtals er gert ráð fyrir 314 m.kr. hækkun tekna en jafnframt er gert ráð fyrir samsvarandi breytingum á gjaldahlið. Þessar tillögur hafa því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Gerð er ein tillaga um millifærslu vegna leiðréttingar á tekjuhlið þar sem 1.300 m.kr. eru færðar af bifreiðagjaldi yfir á kolefnisgjald.

Gjöld ríkissjóðs.
    Tillögur um hækkanir gjalda leiða í heild sinni til 4.030,1 m.kr. hækkunar gjalda. Þar vegur langþyngst stuðningur í tengslum við stöðu íbúa Grindavíkur sem samtals leiða til 3.060 m.kr. hækkunar. Þar af eru á málaflokki 30.10 Vinnumarkaður og atvinnuleysi 2.400 m.kr. vegna laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Tillögurnar hafa verið í mótun og lágu ekki fyrir þegar 2. umræða frumvarpsins var undirbúin. Lögin ná til stuðnings til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem, vegna jarðhræringanna, getur ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöð þess er staðsett í sveitarfélaginu. Enn fremur gilda lögin um stuðning við starfsfólk vegna launataps geti það af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum og fær ekki greidd laun frá atvinnurekanda þrátt fyrir að ráðningarsamband sé til staðar. Þá gilda lögin um stuðning við sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna launataps geti þeir af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir, á málaflokki 31.10 Húsnæðismál, 500 m.kr. tímabundinni hækkun vegna húsnæðisstuðnings. Er þar annars vegar um að ræða 450 m.kr. hækkun vegna laga um sértækan húsnæðisstuðning til að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar. Upphæðin tekur mið af gildistíma laganna sem er til febrúarloka 2024. Hins vegar er um að ræða 50 m.kr. vegna vaxtaniðurgreiðslu í tengslum við kaup leigufélagsins Bríetar á 80 íbúðum sem ætlaðar eru til útleigu til íbúa Grindavíkur.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, á málaflokki 17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands, 160 m.kr. hækkun til að styrkja rekstur Veðurstofu Íslands til að stofnunin geti betur tryggt rekstrarsamfellu og samtúlkun gagna í jarðskjálfta- og eldgosavá m.a. með ráðningu fleiri sérfræðinga sem sinni sérstaklega vöktun og gerð áhættumata.

Málaflokkur 35.10 Þróunarsamvinna.
    Aðrar tillögur eru af ýmsum toga og munar mest um 500 m.kr. tímabundna hækkun, til aukinnar mannúðar- og efnahagsaðstoðar við Úkraínu. Við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga var gerð tillaga um að veita, á grundvelli þróunarsamvinnu, 500 m.kr. framlag til Úkraínu. Stuðningurinn kemur til viðbótar tillögu um 750 m.kr. framlag á grundvelli varnartengdra verkefna. Hér er gerð tillaga um að stuðningur á grundvelli þróunarsamvinnu verði aukinn um 500 m.kr. og verði því alls 1.000 m.kr., eða 1.750 m.kr. að meðtöldum stuðningi sem veittur er á grundvelli varnartengdra verkefna.

Málaflokkur 10.20 Trúmál.
    Gerð er tillaga um 241,1 m.kr. hækkun sóknargjalda, sem leiðir af breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Forsendur fjárlagafrumvarpsins miðuðust við að sóknargjöld yrðu 1.107 kr. á hvern einstakling 16 ára og eldri sem skráður er í þjóðkirkjuna. Nú er gert ráð fyrir að sóknargjöld verði tímabundið 1.192 kr. á einstakling og því óbreytt frá árinu 2023.

    Þrjár tillögur hækka útgjöld samtals um 147 m.kr. en hafa samsvarandi áhrif á tekjuhlið og eru því hlutlausar gagnvart afkomunni. Í fyrsta lagi er á málaflokki 21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi gert ráð fyrir 117,5 m.kr. fjárveitingu vegna leigu á Eddu – húsi íslenskunnar. Er þessi upphæð fjármögnunarþáttur í ríkisrekstrinum og miðað er við að sá hluti verði bættur líkt og gert var vegna almennrar innleiðingar markaðsleigu á húsnæði. Í öðru lagi eru gjaldaheimildir Fjármálaeftirlitsins hækkaðar um 93 m.kr. til samræmis við uppfærðar áætlanir. Í þriðja lagi er gjaldaheimild hjá Umhverfisstofnun lækkuð um 63,5 m.kr. vegna leiðréttingar á fyrri áætlun vegna tekna af veiðikortum og starfsleyfum.

Málaflokkur 20.10 Framhaldsskólar.
    Gerð er tillaga um 42 m.kr. tímabundið framlag til Fisktækniskóla Íslands ehf. svo hægt sé að bjóða nemendum skólavist í janúar 2024 eins og til stóð. Í kjölfar rýmingar Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa hefur skólinn eigi að síður náð að halda úti kennslu og órofa starfsemi. Til stóð að skólinn flyttist í nýtt húsnæði í Grindavík á næsta ári en veruleg óvissa ríkir um þær áætlanir í ljósi aðstæðna. Í undirbúningi er nýr samningur Fisktækniskóla Íslands og mennta- og barnamálaráðuneytis er grundvallast á úttekt ráðuneytisins á starfsemi skólans sem hófst í haust.

Málaflokkur 25.20 Endurhæfingarþjónusta og málaflokkur 29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Loks eru gerðar tvær tillögur þar sem annars vegar er um að ræða 20 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstur Hlaðgerðarkots og hins vegar 20 m.kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstur Krýsuvíkursamtakanna.

    Aðrar tillögur sem fram koma í sérstöku breytingartillöguskjali eru millifærslur, ýmist á milli málefnaflokka og málefnasviða eða breytt hagræn skipting. Þar vegur þyngst að óskað er eftir heimild á málaflokki 23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta til breyttrar ráðstöfunar á 600 m.kr. fjárveitingu til byggingar Nýja Landspítalans til kaupa á nýjum línuhraðli fyrir Landspítalann.
    Einnig er vakin athygli á tillögu á málaflokki 21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi sem ekki hefur áhrif útgjöld en felur í sér heimild til að breyta ráðstöfun á framlagi frá Happdrætti Háskóla Íslands. Eftir að fasteignir Háskólans fluttust til Fasteignafélags Háskóla Íslands falla viðhaldsframkvæmdir undir félagið og Háskólinn greiðir leigu til félagsins.
    Gerð er tillaga um að heimiluð verði breytt ráðstöfun á 200 m.kr. framlagi frá Happdrætti Háskóla Íslands sem áður hafði verið gert ráð fyrir að rynni til byggingar Húss heilbrigðisvísindasviðs, en í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að 100 m.kr. af framlagi Happdrættis Háskóla Íslands renni til viðhaldsframkvæmda en 1.538 m.kr. til Húss heilbrigðisvísindasviðs. Með þessari ráðstöfun lækkar framlagið til Húss heilbrigðisvísindasviðs árlega um 200 m.kr. og nemur þá 1.338 m.kr. á árinu 2024.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 15. desember 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form., frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson. Jódís Skúladóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Árnason.